Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 516. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1330  —  516. mál.
Viðbætur .




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og telur að athugun málsins og umræðu innan nefndarinnar hafi alls ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Málið var fyrst afgreitt frá nefndinni í miklum flýti og þótt málið hafi síðar verið tekið aftur til skoðunar er mörgum spurningum enn ósvarað og fyrir hendi ýmis álitaefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.
    Ljóst má vera af umsögnum og orðum gesta nefndarinnar að verulega skiptar skoðanir eru um frumvarpið og forsendurnar sem það byggist á. Fullyrðingar umsagnaraðila um mikilvæga þætti málsins stangast á og gerði nefndin ekki nægar tilraunir til þess að afla viðbótarupplýsinga þannig að unnt yrði að meta með fullnægjandi hætti hvað rétt sé í þeim efnum. Þetta er auðvitað óviðunandi, enda er samdóma álit bæði stuðningsmanna frumvarpsins og efasemdarmanna að um afar mikilvægt mál sé að ræða og eitt umdeildasta mál samtímans, svo að vitnað sé til orða fyrrverandi umhverfisráðherra.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Frumvarpið hefur þann tilgang að innleiða í íslenska löggjöf tilskipun Evrópusambandsins um erfðabreyttar lífverur í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst er að tilskipunin veitir aðildarríkjunum nokkurt svigrúm í sambandi við útfærslu einstakra ákvæða og er að sjálfsögðu mikilvægt að vandað sé til verka í þeim efnum. Ljóst er að útfærslan í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er með mismunandi hætti en talsvert skortir á að upplýst sé hver sá munur er. Þetta atriði skiptir verulegu máli, enda komu fram fyrir nefndinni bæði fullyrðingar í þá átt að með frumvarpinu væri gengið of skammt miðað við sum nágrannalöndin og að gengið væri of langt. Full ástæða er til að gjalda varhug við því að umhverfisnefnd Alþingis gefi sér ekki tóm til að gera ítarlegan og vandaðan samanburð á fyrirliggjandi frumvarpi og löggjöf nágrannaríkja okkar á þessu sviði. Upplýst hefur verið að væntanleg sé innan mánaðar skýrsla ESB um mat á reynslu aðildarlanda þess af umræddri tilskipun og kostir hennar og gallar metnir. Í ljósi núverandi samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og rannsóknarstofnana á þessu sviði og möguleikum Íslands á því að byggja upp aukna starfsemi í líftækni, bæði í rannsóknum og iðnaði, telur minni hlutinn það ábyrgari afstöðu að leiða fram þá reynslu sem fengist hefur í nágrannaríkjum Íslands af umræddri tilskipun áður en hún er leidd í lög hér á landi.
    Meðal þeirra atriða sem minni hlutinn telur að skoða þurfi mun betur:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


          Hvernig samræmist orðalag frumvarpsins texta tilskipunarinnar? Fram hafa komið fullyrðingar um að þar sé ekki um samræmi að ræða. Ákveðnar tilraunir hafa gerðar innan nefndarinnar til að skoða þetta atriði en ekki verður fallist á að þeim samanburði sé lokið. Einnig hefur komið fram í umræðum að fyrirhugaðar séu breytingar á tilskipun ESB um erfðabreyttar lífverur án þess að fyrir liggi í hverju þær breytingar kunni að felast.
          Hvernig hefur réttarþróun verið innan Evrópusambandsins á þessu sviði frá því að tilskipunin var sett fyrir níu árum?
          Hvernig hefur tilskipunin verið innleidd í landsrétt annarra ríkja, einkum hvað varðar þá þætti frumvarpsins sem umdeildastir eru?
          Hvernig samrýmist frumvarpið þeim markmiðum stjórnvalda að ýta undir þróun rannsókna og nýsköpun og uppbyggingu atvinnustarfsemi á sviði líftækni?
    Telur minni hlutinn því nauðsynlegt að málið fái frekari umfjöllun í umhverfisnefnd áður en það er afgreitt sem lög frá Alþingi.

Einstök ákvæði frumvarpsins.
    Varðandi einstök ákvæði frumvarpsins vill minni hlutinn vekja athygli á eftirfarandi sjónarmiðum og efnisatriðum sem þarfnast sérstakrar athygli:
     1.      Í 1. gr. er meðal annars kveðið á um að meðal markmiða frumvarpsins sé að vernda líffræðilega fjölbreytni. Hér er um virðingarvert markmið að ræða en minni hlutinn vekur athygli á því að hér er um hugtakanotkun að ræða sem getur skapað ákveðin vandkvæði í framkvæmd. Einnig hafa umsagnaraðilar bent á að líffræðileg fjölbreytni sé ekki meðal sérstakra markmiða tilskipunar EB.
     2.      Í 1. gr. er að því er virðist hert á svonefndri varúðarreglu og hafa umsagnaraðilar vakið athygli á því að það geti sett þá sem reka starfsemi á þessu sviði í afar erfiða stöðu. Ströng túlkun varúðarreglunnar getur sett umsækjendur í mikinn vanda varðandi sönnun á því að starfsemi þeirra muni ekki hugsanlega geta haft nokkrar skaðlegar afleiðingar. Fullkomin vísindaleg sönnun í þá átt er afar erfið ef ekki ómöguleg. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur að verði ákvæðið í þessa veru sé tryggt að starfandi sé óháð ráðgjafanefnd, sem stendur styrkum stoðum í vísindasamfélaginu. Loks vekur minni hlutinn athygli á því að huga þurfi að skýrri og samræmdri skilgreiningu varúðarreglunnar í íslenskum lögum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Í c-lið 3. gr. er fjallað um skýringar orðanna slepping og dreifing og eru þær verulega frábrugðnar ákvæðum tilskipunar ESB. Frumvarpstextinn er talsvert þrengri, einkum þegar talað er um aflokun með veggjum, sem hvergi er minnst á í tilskipuninni. Meiri hlutinn hefur að nokkru leyti tekið tillit til sjónarmiða minni hluta en þó fyrst og fremst með því að fela ráðherra reglugerðavald til að útfæra skilyrði um fullnægjandi tálmanir í þessu sambandi. Minni hlutinn vekur athygli á því að óeðlilegt er að fela ráðherra alltof opna heimild af þessu tagi og telur að fyrirmæli um slík skilyrði eigi að koma fram í lögunum sjálfum.
     4.      Í 14. gr. er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að krefjast endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til vegna sérstakra rannsókna, úttekta eða kynningar. Minni hlutinn telur fulla ástæðu til að þessi heimild stofnunarinnar verði afmörkuð með einhverjum hætti þannig að hún hafi ekki sjálfdæmi um þessa gjaldtöku.
    Fleiri einstök ákvæði frumvarpsins kunna að krefjast nánari umræðu í umhverfisnefnd og áskilur minni hlutinn sér rétt til að flytja breytingartillögur síðar í samræmi við niðurstöður þeirra umfjöllunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þess ber sérstaklega að geta að við yfirferð frumvarpsins kom fram hjá fulltrúum Umhverfisstofnunar að samkvæmt frumvarpinu er stofnuninni ætlað ákveðið hlutverk er lýtur að eftirliti og framkvæmd væntanlegrar löggjafar á þessu sviðið. Mjög skýrt kom fram hjá fulltrúum stofnunarinnar að útilokað væri að þeirra mati að stofnunin gæti af fjárhagslegum ástæðum sinnt því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpinu. Engar tillögur hafa komið fram hjá meiri hluta nefndarinnar til þess að bæta hér úr.
    Minni hlutinn leggur að lokum áherslu á það meginsjónarmið að íslenskum stjórnvöldum og Alþingi beri að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir nýsköpun og uppbyggingu rannsókna og þróunar í atvinnulífinu, sem getur skilað ótvíræðum ávinningi fyrir þjóðarbúið. Minni hlutinn undirstrikar á sama tíma nauðsyn þess að bæði sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og hagsmuna annarra og viðurkennir nauðsyn þess að löggjafinn og stjórnvöld veiti eðlilegt aðhald til að tryggja að slík markmið náist. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar felur í sér breytingar sem geta haft hamlandi áhrif umfram það sem nauðsynlegt er, og getur minni hlutinn því ekki stutt það nema fram fari nánari athugun á efni þess og ýmsar breytingar verði gerðar umfram þær sem finna má í áliti og breytingartillögum meiri hlutans.

Alþingi, 11. júní 2010.



Birgir Ármannsson,


frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Vigdís Hauksdóttir.